Ferill 1039. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1514  —  1039. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um rannsókn vegna snjóflóðs sem féll í Súðavík 16. janúar 1995.


Frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.


    Alþingi ályktar í samræmi við lög um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011, að skipa rannsóknarnefnd þriggja einstaklinga til að rannsaka málsatvik í tengslum við snjóflóð sem féll í Súðavík 16. janúar 1995.
    Rannsóknarnefndin dragi saman og útbúi til birtingar upplýsingar um málsatvik í því augnamiði að varpa ljósi á ákvarðanir og verklag stjórnvalda þar sem gerð verði grein fyrir:
     1.      hvernig staðið var að ákvörðunum um snjóflóðavarnir, hvernig skipulagi byggðar var háttað með tilliti til snjóflóðahættu, gerð hættumats og hvernig staðið var að upplýsingagjöf um snjóflóðahættu til íbúa Súðavíkur,
     2.      fyrirkomulagi og framkvæmd almannavarnaaðgerða í aðdraganda snjóflóðsins, í kjölfar þess og þar til hættuástandi var aflétt,
     3.      eftirfylgni stjórnvalda í kjölfar snjóflóðsins.
    Rannsókninni ljúki svo fljótt sem verða má og eigi síðar en einu ári eftir skipun rannsóknarnefndarinnar.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er flutt af stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í samræmi við lög um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011. Með henni er lagt til að fram fari rannsókn á málsatvikum í tengslum við snjóflóðið sem féll í Súðavík 16. janúar 1995.
    Forsaga málsins er sú að 6. júní 2023 barst stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd bréf frá forsætisráðherra. Í því kom fram að ráðherra hefði borist erindi frá lögmannsstofu fyrir hönd aðstandenda og eftirlifandi ættingja þeirra fjórtán einstaklinga sem létust í snjóflóðinu. Í erindinu var farið þess á leit að rannsókn færi fram á þætti hins opinbera í snjóflóðinu, til að mynda með skipan rannsóknarnefndar á grundvelli laga um rannsóknarnefndir. Í bréfi ráðherra til nefndarinnar kom fram að ekki væri að finna í lögum sérstaka heimild til handa forsætisráðherra eða öðrum ráðherrum til að ráðast í rannsókn af þessu tagi. Ráðherra hafi því ákveðið að vísa erindinu til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem tók málið til umfjöllunar, aflaði gagna og kallaði til sín gesti á fund. Við undirbúning tillögunnar var jafnframt leitað umsagnar forseta Alþingis skv. 3. mgr. 1. gr. laga um rannsóknarnefndir. Brugðist var við ábendingum í umsögninni, m.a. með því að bæta við nánari umfjöllun um þau atriði sem nefndinni ber að leggja mat á, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna.
    Að lokinni yfirferð sinni er það mat stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að mikilvægt sé að fram fari hlutlæg og óháð rannsókn á þeim atburðum sem hér eru til umfjöllunar. Ljóst er, eins og rakið verður að aftan, að ekki fór fram óhlutdræg rannsókn í kjölfar þeirra sviplegu atburða sem áttu sér stað í Súðavík 16. janúar 1995. Hefur það skapað tortryggni og vantraust gagnvart stjórnvöldum sem mikilvægt er að eyða. Taka þarf til rannsóknar málsatvik svo að leiða megi í ljós hvernig staðið var að ákvörðunum og verklagi stjórnvalda í tengslum við snjóflóðið í Súðavík. Á grundvelli slíkrar athugunar geta Alþingi og stjórnvöld eftir atvikum metið hvort dreginn hafi verið lærdómur af atburðunum og hvort úrbóta sé þörf. Slík athugun hefur einnig það hlutverk að svara ákalli um óhlutdræga rannsókn á málsatvikum sem hefur verið uppi frá því að atburðirnir urðu. Nefndin vill taka fram að við umfjöllun málsins hefur hún ekki orðið þess áskynja að neitt saknæmt hafi átt sér stað.

Snjóflóðið í Súðavík.
Rannsókn málsatvika.
    Snjóflóðið 16. janúar 1995 var reiðarslag fyrir samfélagið í Súðavík og hefur haft djúpstæð áhrif á eftirlifendur og aðstandendur þeirra sem létust auk þess sem atburðurinn hefur markað djúp spor í sögu þjóðarinnar. Hópur eftirlifenda og aðstandenda þeirra sem létust í snjóflóðinu hefur frá upphafi leitað eftir því að málið verði tekið til óháðrar rannsóknar. Tilraunir þeirra hafa ekki borið tilætlaðan árangur. Segja má að raddir sem vildu að málið skyldi rannsakað hafi ekki þagnað á þeim hartnær þremur áratugum sem liðnir eru síðan snjóflóðið féll.
    Með bréfi til dóms- og kirkjumálaráðuneytis 21. mars 1995 var farið þess á leit að sérstök rannsókn færi fram á grundvallaratriðum varðandi snjóflóðið. Hinn 31. mars sama ár fól ráðuneytið Almannavörnum ríkisins að taka saman ítarlega greinargerð um þau atriði sem farið var fram á í erindi til ráðuneytisins en lögð var áhersla á hraða samningu greinargerðarinnar. Hinn 28. apríl sama ár skiluðu Almannavarnir ríkisins greinargerð um snjóflóðin í Súðavík til ráðuneytisins. Ári síðar var gefin út skýrsla Almannavarna ríkisins um náttúruhamfarirnar á Vestfjörðum í janúar 1995. Byggðist hún á gögnum sem safnað hafði verið í aðdraganda ráðstefnunnar „Snjóflóð 95“ sem haldin var í lok maí 1995. Í skýrslunni kemur fram að „sá mikli hraði sem hafður var á við að ganga frá skýrslunni [komi] að einhverju leyti niður á gæðum hennar“. Þá var ráðstefnugestum gefinn kostur á að móta lokaskýrsluna en fram hefur komið að skiptar skoðanir voru meðal ráðstefnugesta um hversu ítarleg rýnin átti að vera.
    Af gögnum málsins má ráða að þegar í upphafi hafi verið gerðar athugasemdir við það fyrirkomulag að Almannavörnum ríkisins væri falin rannsókn snjóflóðsins í ljósi þess að stofnunin hafði lögbundnu hlutverki að gegna við snjóflóðavarnir. Með því að fela Almannavörnum ríkisins rannsókn málsins hafi þeim í raun verið falið að rannsaka eigin starfsemi. Má segja að á þetta sjónarmið hafi verið fallist af stjórnvöldum og Alþingi en í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því sem varð að núgildandi lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997, segir að „bent [hafi] verið á það að æskilegt sé að fram fari hlutlæg og óháð rannsókn á orsökum og afleiðingum ofanflóðs í hvert sinn sem manntjón hefur orðið“. Í samræmi við það segir nú í lögunum að í hvert sinn sem manntjón verði í byggð af völdum ofanflóðs skuli skipa sérstaka nefnd til að rannsaka orsakir ofanflóðsins og afleiðingar þess.
    Í gögnum málsins kemur fram að tveimur mánuðum eftir snjóflóðið hafi þáverandi lögmaður aðstandenda farið fram á það við dóms- og kirkjumálaráðherra að hann skipaði rannsóknarnefnd vegna málsins. Ráðherra hafi bent honum á að leita til ríkissaksóknara með málið en ríkissaksóknari hafi hafnað beiðni um opinbera rannsókn þar sem ekkert þótti benda til þess að nokkur yrði ákærður. Með bréfi árið 2004 var að nýju farið fram á að ríkissaksóknari tæki málið til rannsóknar en því var aftur hafnað.

Málsatvik í aðdraganda snjóflóðs.
    Af þeim gögnum og upplýsingum sem nefndin hefur aflað sér má ráða að í kjölfar tveggja snjóflóða sem féllu aðfaranótt 7. janúar 1983 hafi verið hugað að snjóflóðavörnum fyrir Súðavík. Snjóflóðið ruddi burt rafveituspenni, fjárhúsi og hlöðu og rann inn á lóðir við Túngötu í Súðavík og lóð sem ætluð var undir leikskóla og barnaskóla. Skipulag ríkisins taldi að endurmeta þyrfti byggingarhæfni þeirra svæða sem snjóflóðið náði til. Um áhrif snjóflóðsins á byggðina og mögulega hættu voru þó skiptar skoðanir. Var á það bent að ekki væri vitneskja um að snjóflóð hefðu fallið á þessum stöðum áður þó að komið hefðu flóð innar í plássinu. Súðavíkurhreppur fékk í kjölfarið verkfræðinga annars vegar hjá verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens á Ísafirði og hins vegar hjá Vegagerð ríkisins til að skoða málið og réðust þeir í vettvangskönnun og skiluðu greinargerð um athugun sína.
    Með bréfi 18. janúar 1985 frá Skipulagi ríkisins til sveitarstjórans í Súðavíkurhreppi í tengslum við uppbyggingu íbúðarhúsa við Engjaveg kom fram að væntanleg byggð myndi rísa á svæði þar sem nokkur snjóflóðahætta væri. Stofnunin taldi því einungis hægt að mæla með íbúðarhúsabyggð neðanvert við Engjaveg ef varnir yrðu gerðar. Byggðist sú niðurstaða stofnunarinnar á greinargerð framangreindra verkfræðinga en þeir töldu snjóflóðavarnir nauðsynlegar svo að ráðast mætti í frekari uppbyggingu byggðar.
    Með bréfi sveitarstjóra Súðavíkurhrepps 8. janúar 1986 til ofanflóðanefndar var óskað eftir að gert yrði hættumat fyrir Súðavík vegna snjóflóða. Í bréfinu kom fram að hönnun að snjóflóðavörnum og gerð kostnaðaráætlunar væri rétt ólokið og sótt yrði um styrk til þeirra framkvæmda strax og hönnuninni væri lokið. Kostnaðaráætlun og tillögur að gerð varnarvirkja lágu fyrir mánuði síðar og voru sendar ofanflóðanefnd 27. febrúar 1986. Erindi Súðavíkurhrepps um styrkveitingu var þó synjað þar sem ekkert formlegt hættumat lá fyrir um Súðavík.
    Á þessum tíma byggðist gerð hættumats á þágildandi lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 28/1985. Þar sagði að meta skyldi hættu á ofanflóðum í þeim sveitarfélögum þar sem ofanflóð hefðu fallið á byggð eða nærri henni eða hætta væri talin á slíku. Almannavörnum ríkisins var falið að annast hættumat og setja reglur um forsendur og aðferðir við gerð þess, um flokkun hættusvæða og nýtingu þeirra, svo og um gerð varnarvirkja. Reglurnar skyldu staðfestar af félagsmálaráðherra. Drög að reglum um hættumat voru lagðar fyrir ofanflóðanefnd 25. apríl 1988 og voru staðfestar af ráðherra 23. júní 1988 en þær byggðust á reiknilíkani sem gert var hér á landi. Hinn 11. ágúst 1989 var ákveðið að Súðavík skyldi fyrst byggða verða tekin til hættumats á grundvelli reglnanna.
    Í hættumati vegna snjóflóða fyrir Súðavík frá 25. ágúst 1989 kemur fram að við Súðavík væri hættusvæði vegna snjóflóða en meginhluti byggðar væri utan þess en tíu hús lentu innan þess. Nauðsynlegt væri að verja þá byggð sem fyrir væri á hættusvæðinu og kom fram að það væri hlutverk hreppsnefndar Súðavíkurhrepps að gera tillögur til Almannavarna ríkisins að varnarvirkjum fyrir byggingar á því. Meðan slík varnarvirki skorti myndu Almannavarnir ríkisins mæla með brottflutningi fólks frá umræddum byggingum og lokun fyrir umferð um hættusvæðið hvenær sem snjóflóðahætta skapaðist í Súðavík að mati sérfræðinga Veðurstofu Íslands og athugunarmanns með snjóflóðahættu í Súðavík. Jafnframt myndu Almannavarnir ríkisins fela almannavarnanefnd Súðavíkur framkvæmd þess brottflutnings samkvæmt skipulagi þar um.
    Hinn 9. febrúar 1990 átti framkvæmdastjóri Almannavarna ríkisins fund með hreppsnefnd og almannavarnanefnd Súðavíkur um valkosti og möguleika til snjóflóðavarna í Súðavík út frá hættumati. Meðal þess sem rætt var voru hugsanlegar varnir vegna þeirra sjö húsa sem stóðu ofan Nesvegar og norðan Höfðabrekku en þau hús voru á hættusvæði samkvæmt hættumati. Í fundargerð kemur fram að fundarmenn hafi orðið sammála um að rétt væri að snjóflóðavarnir ofan Nesvegar skyldu hafa forgang.
    Snjóflóðavarnir höfðu þó ekki verið reistar þegar snjóflóð féll í Súðavík að morgni 16. janúar 1995. Flóðið féll yfir hús við Túngötu, Nesveg og Njarðarbraut með þeim afleiðingum að fjórtán einstaklingar létust og tíu slösuðust. Tólf einstaklingum var bjargað úr flóðinu en hátt í fjögur hundruð björgunarsveitarmenn tóku þátt í björgunaraðgerðum.
    Í kjölfar snjóflóðsins var því veitt athygli að línan sem markaði hættusvæðið lá meðfram Túngötu en eins og sagt var að framan hafði snjóflóð runnið á lóðir við Túngötu árið 1983. Þá voru skiptar skoðanir um reiknilíkan sem var grundvöllur hættumats en útreikningar samkvæmt öðrum líkönum bentu til þess að hætta á snjóflóðum fyrir byggðina væri mun meiri. Í fundargerð ofanflóðanefndar frá 6. febrúar 1995 kom jafnframt fram það mat nefndarinnar að hættumatið hefði ekki verið skýrt nægilega fyrir heimamönnum hvað varðar verulega óvissu um þau svæði sem merkt voru sem „hættulaus svæði“. Íbúar í Súðavík hefðu ekki verið upplýstir um þessa óvissu yfirvalda.

Framkvæmd almannavarnaaðgerða.
    Hinn 15. janúar 1995 gaf veðurspá tilefni til að hafa gætur á snjóflóðahættu í Súðavík. Veðurstofa Íslands hafði samband við Almannavarnir ríkisins til að tilkynna um að fylgst yrði með snjóflóðahættu. Einnig var sýslumaðurinn á Ísafirði upplýstur um málið. Í kjölfarið hófust samtöl milli einstaklinga í almannavarnanefnd Súðavíkur um veðurþróunina.
    Um nóttina fór fram gagnasöfnun og upplýsingaskipti milli framangreindra aðila. Á grundvelli þeirra tók sýslumaður þá ákvörðun, að höfðu samráði við sveitarstjóra Súðavíkurhrepps, að moka Aðalgötu svo að unnt væri að rýma svæðið neðan við Traðargil en það var skilgreint sem hættusvæði samkvæmt hættumati. Af gögnum málsins réðu fulltrúi Veðurstofu Íslands og athugunarmaður með snjóflóðahættu í Súðavík að ekki væri síður ástæða til að hafa áhyggjur af svokölluðu „ytra svæði“. Af gögnum málsins er þó óljóst hverjir í almannavarnanefnd voru upplýstir um þessar áhyggjur af ytra svæðinu en fulltrúi Veðurstofu Íslands upplýsti þó um að hann hefði ekki nefnt ytra svæðið í samtali við fulltrúa Almannavarna ríkisins. Eftir því sem leið á nóttina og áhyggjur manna jukust hefðu einstaka fulltrúar í almannavarnanefnd og fulltrúi Veðurstofu Íslands rætt um að kalla þyrfti saman almannavarnanefnd. Af gögnum málsins virðist sem formleg ákvörðun um að kalla saman nefndina hafi verið á reiki. Rætt hafi verið um að nefndin kæmi saman til fundar klukkan átta að morgni 16. janúar 1995 en snjóflóðið féll þegar klukkan var sautján mínútur gengin í sjö þá um morguninn.
    Í kjölfar snjóflóðsins kom fram gagnrýni á ákvarðanir og athafnir almannavarnayfirvalda í aðdraganda snjóflóðsins. Samkvæmt skipulagi Almannavarna ríkisins áttu boðleiðir og ákvarðanataka um mat og aðgerðir á grundvelli þess að vera skýr. Í skýrslunni um náttúruhamfarirnar á Vestfjörðum í janúar 1995 er fundið að ýmsum þáttum hjá þeim aðilum sem höfðu hlutverki að gegna við almannavarnir. Ekki hafi verið fylgt skipulagi almannavarna um viðbúnaðar- eða hættustig við boðskipti og mat á aðstæðum. Samskiptaörðugleika hafi gætt milli aðila og ekki hafi verið fylgt því formi sem átti að vera á tilkynningaflæði og mati á hættuástandi.

Skipun rannsóknarnefndar.
Tilefni og grundvöllur.
    Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skal við undirbúning þingsályktunar um skipun rannsóknarnefndar leggja mat á tilefni og grundvöll rannsóknar, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 1. gr. laga um rannsóknarnefndir. Með því er átt við að taka til skoðunar hvort um mikilvægt mál sé að ræða sem almenning varðar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna, en slík mál þurfa almennt að varða starfsemi ríkisins. Sú rannsókn sem hér er lögð til snýr að því að varpa ljósi á ákvarðanir og verklag stjórnvalda í tengslum við snjóflóðið sem féll í Súðavík 16. janúar 1995.
    Skipun rannsóknarnefndar er sérstakt úrræði sem almennt ber ekki að grípa til nema í vissum tilvikum. Í frumvarpi því sem varð að lögum um rannsóknarnefndir og framhaldsnefndaráliti allsherjarnefndar Alþingis um málið er að finna leiðbeinandi sjónarmið um hvenær rétt sé að skipa rannsóknarnefnd. Má þar nefna sjónarmið um að mál hafi almennt mikilvægi, þ.e. að það hafi tiltekið vægi sem kunni að birtast í því að það hafi verið lengi í opinberri umræðu án þess að öldur hafi lægt. Nefndin telur einnig að vægi máls geti birst í því að það hafi haft mikil áhrif hér á landi án þess að hafa verið til lykta leitt. Þá getur það einnig verið grundvöllur til að setja á fót rannsóknarnefnd ef uppi er krafa um sjálfstæði og óhlutdrægni gagnvart ríkisstjórn eða öðrum stjórnvöldum. Eins og fram hefur komið fór ekki fram hlutlæg og óháð rannsókn í kjölfar snjóflóðsins í Súðavík. Þær rannsóknir sem fóru fram voru í höndum Almannavarna ríkisins sem ekki gat talist hlutlaus aðili. Lengi hefur verið kallað eftir að slík rannsókn fari fram og er það ákall enn til staðar. Að mati nefndarinnar er því hér um að ræða mikilvægt mál sem varðar almenning.

Umfang rannsóknar og afmörkun.
    Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ber jafnframt að leggja mat á mögulegt umfang rannsóknar og afmörkun hennar, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 1. gr. laga um rannsóknarnefndir. Lagt er til að meginhlutverk rannsóknarnefndarinnar lúti að því að rannsaka málsatvik í tengslum við snjóflóðið sem féll í Súðavík 16. janúar 1995. Rannsóknin feli í sér að draga saman og útbúa til birtingar upplýsingar um málsatvik í því augnamiði að varpa ljósi á ákvarðanir og verklag stjórnvalda þar sem gerð verði grein fyrir því hvernig staðið var að ákvörðunum um snjóflóðavarnir, um það hvernig skipulagi byggðar var háttað með tilliti til snjóflóðahættu og um gerð hættumats og fyrir því hvernig staðið var að upplýsingagjöf um snjóflóðahættu til íbúa í Súðavík. Jafnframt verði gerð grein fyrir fyrirkomulagi og framkvæmd almannavarðaaðgerða í aðdraganda snjóflóðsins og í kjölfar þess að snjóflóðið féll og þar til hættuástandi var aflétt. Þá verði jafnframt gerð grein fyrir því hvernig eftirfylgni stjórnvalda í kjölfar snjóflóðsins var háttað. Með því er átt við að kanna til hvaða aðgerða gripið var, t.d. með breytingum á skipulagi stjórnsýslu, gerð hættumats og laga- og reglugerðarbreytingum. Sá tími sem nefndin telur að miða megi upphaf skoðunar við er frá því að farið var að huga að snjóflóðavörnum í Súðavík árið 1983. Ljóst er að nokkur fjöldi gagna og upplýsinga liggur fyrir sem varpað getur ljósi á málavexti. Hins vegar hefur ekki verið unnið skipulega úr þeim með heildstæðum hætti. Mikilvægt er að það verði gert og upplýsingar um atvik málsins dregnar saman og þær útbúnar til birtingar ásamt ályktunum þar að lútandi sem tilefni þykir til að setja fram.

Önnur úrræði.
    Í lögum um rannsóknarnefndir segir að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skuli leggja mat á hvort önnur úrræði séu tiltæk, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 1. gr. laganna. Almennt er miðað við að ekki skuli setja á fót rannsóknarnefnd ef fyrirséð er að málið verði rannsakað af þar til bærum aðila.
    Af framangreindri umfjöllun má ráða að óhlutdræg rannsókn fór ekki fram í kjölfar snjóflóðsins í Súðavík. Strax í upphafi var kallað eftir því að fram færi sjálfstæð og óháð rannsókn gagnvart framkvæmdarvaldinu og það ákall er enn til staðar. Því er ljóst að slíku ákalli verður ekki svarað með því að fela ráðherra rannsókn málsins. Þá telur nefndin í ljósi málavaxta og upplifunar og samskipta eftirlifenda og aðstandenda við stjórnvöld að betur fari á því að viss fjarlægð verði sköpuð milli rannsakenda og stjórnvalda. Telur nefndin því ekki unnt að fela nefnd skv. 8. gr. laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum rannsókn málsins, t.d. með setningu sérstaks bráðabirgðaákvæðis þar um, enda er sú nefnd ráðherraskipuð þó að hún sé sjálfstæð í störfum sínum og að öðru leyti til þess bær. Þá telur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að það myndi ekki svara ákalli eftirlifenda og aðstandenda að hún réðist sjálf í athugun á málinu að eigin frumkvæði.

Fjöldi nefndarmanna og kröfur til faglegrar þekkingar þeirra.
    Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 1. gr. laga um rannsóknarnefndir skal stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leggja mat á fjölda nefndarmanna og hvaða kröfur eigi að gera til faglegrar þekkingar þeirra. Við matið ber að líta til markmiðs og umfangs rannsóknar en fjöldi nefndarmanna ræðst af umfangi rannsóknar. Þá þarf að horfa til þess hvaða gagna og upplýsinga er nauðsynlegt að afla og vinna úr. Þá er einnig rétt að líta til þess tíma sem liðinn er og að það fólk sem kom að undirbúningi og gerð hættumats, eftirliti með snjóflóðahættu, almannavarnaaðgerðum og björgunarstörfum er mögulega ekki lengur fært um að veita upplýsingar um málsatvik. Loks er rétt að líta til þeirra breytinga sem orðið hafa á löggjöf um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum frá því að atvik áttu sér stað.
    Í ljósi framangreindra sjónarmiða telur nefndin rök hníga að því að fela þremur einstaklingum rannsókn málsins. Mikilvægt er að nefndarmenn hafi nauðsynlega sérþekkingu til að leggja mat á atriði sem varða almannavarnir, snjóflóðavarnir og skipulag byggðar, hættumat og stjórnsýslu. Rannsóknarnefndinni verði falið að draga saman og útbúa til birtingar upplýsingar um málsatvik ásamt ályktunum þar að lútandi sem tilefni þykir til að setja fram. Nefndin gerir ráð fyrir því að formaður muni starfa í fullu starfi en aðrir nefndarmenn í hlutastarfi. Er þá horft til þess að nokkur fjöldi gagna og upplýsinga liggur fyrir sem varpað geta ljósi á málavexti. Þá má ætla að það verði einfaldara og fyrirhafnarminna að kalla til viðeigandi sérfróða nefndarmenn í hlutastarf fremur en fullt starf, sérstaklega með hliðsjón af því almannavarnaástandi sem ríkir um þessar mundir. Þá telur nefndin að þörf sé á að minnsta kosti einum starfsmanni.

Áætlaður kostnaður af störfum rannsóknarnefndar.
    Í lok 2. mgr. 1. gr. laga um rannsóknarnefndir kemur fram að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skuli áætla kostnað af störfum rannsóknarnefndar. Við áætlun kostnaðar ber annars vegar að líta til þess mannauðs sem rannsóknin krefst og hins vegar annarra kostnaðarliða eins og húsnæðiskostnaðar, ferðakostnaðar, skjalastjórnar, tölvuþjónustu og annars aðbúnaðar sem rannsóknarnefndir kunna að þarfnast. Langstærstu kostnaðarliðir við rannsóknarnefndir fram að þessu hafa verið laun og launatengd gjöld nefndarmanna, starfsfólks og annarra sérfræðinga. Launakjör nefndarmanna hafa verið miðuð við laun héraðsdómara með álagi (10–25%) er taki mið af umfangi rannsóknar. Samkvæmt 3. mgr. 44. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016, eru föst laun héraðsdómara 1.869.661 kr. Sé gert ráð fyrir 15% álagi á föst laun héraðsdómara, launatengdum gjöldum og orlofsgreiðslum má áætla að launakostnaður fyrir einn nefndarmann geti numið um 2,9 millj. kr. á mánuði. Launakostnaður eins nefndarmanns í fullu starfi og tveggja í hálfu starfi í eitt ár gæti því numið um 70 millj. kr.
    Miðað við reynslu fyrri rannsóknarnefnda má áætla kostnað við eitt stöðugildi starfsmanns um það bil 1,5 millj. kr. á mánuði með launatengdum gjöldum. Eins og fram hefur komið telur nefndin að þörf sé á að minnsta kosti einum starfsmanni við rannsóknina. Sé miðað við einn starfsmann má áætla að launakostnaður hans geti numið um 17,5 millj. kr. í eitt ár.
    Að því er varðar aðkeypta sérfræðiþjónustu hefur sá kostnaður verið mjög misjafn í störfum fyrri rannsóknarnefnda Alþingis. Þörf fyrir aðkeypta sérfræðiþjónustu ræðst af miklu leyti af þeirri sérfræðiþekkingu og reynslu sem nefndarmenn og starfsfólk rannsóknarnefnda býr yfir, hvernig viðfangsefni rannsóknarnefndar eru nánar afmörkuð og hversu aðgengilegar upplýsingar og gögn eru um málið. Ljóst er að erfitt getur reynst að áætla sérfræðikostnað með einhverri nákvæmni. Þó telur nefndin að líta megi til þess að gögn og upplýsingar liggja að nokkru leyti fyrir, rannsóknin er tiltölulega afmörkuð í tíma og meginviðfangsefni rannsóknarinnar er að draga saman og útbúa til birtingar upplýsingar um málsatvik. Þó að ekki sé um mjög umfangsmikla rannsókn að ræða er mikilvægt að tryggt verði nægt fjármagn til að geta kallað til sérfræðinga í almannavörnum, gerð hættulíkana, björgunarstarfi, skipulagsmálum og stjórnsýslu sveitarfélaga við rannsóknina. Telur nefndin því að horfa megi til þess að kaup á sérfræðiþjónustu geti numið um 15 millj. kr.
    Hvað varðar kostnað við önnur aðföng er það mat nefndarinnar að gera megi ráð fyrir 12 millj. kr. í stofnkostnað og rekstrarkostnað. Þar undir fellur skrifstofubúnaður, tölvubúnaður og hugbúnaður ásamt húsakosti og ýmsum rekstrarvörum. Nefndin horfir sérstaklega til þess að komast megi hjá miklum kostnaði við útgáfu skýrslunnar sjálfrar með því að birta hana einungis á netinu en kostnaður við útgáfu skýrslna fyrri rannsóknarnefnda hefur hljóðað upp á 4,8 millj. kr.